Ferill 875. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1311  —  875. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um lögfestingu og framfylgd mengunarbótareglu.


Flm.: Rafn Helgason, Guðbrandur Einarsson, Hanna Katrín Friðriksson, Jón Steindór Valdimarsson, Sigmar Guðmundsson.


    Alþingi ályktar að fela umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, heilbrigðisráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra að skipa starfshóp til að stuðla að víðtækari lögfestingu og framfylgd mengunarbótareglu í íslenskum lögum og reglugerðum.
    Markmið starfshópsins verði:
     a.      að kortleggja og greina samfélagslegan kostnað og önnur neikvæð úthrif af losun gróðurhúsalofttegunda og loftmengunarefna með sérstakri áherslu á áhrif þeirra á heilsu fólks, vistkerfaþjónustu og loftslagsskuldbindingar Íslands,
     b.      að leggja til nauðsynlegar breytingar á opinberum gjöldum og eftir tilvikum á lögum til að samfélagslegur kostnaður af völdum mengunar sé bættur að fullu, óháð því um hvaða atvinnugrein ræðir.
    Starfshópurinn verði skipaður fulltrúum Umhverfisstofnunar, embættis landlæknis, Háskóla Íslands, fjármála- og efnahagsráðuneytis, heilbrigðisráðuneytis og umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytis, auk þess sem leitað verði álits Félags lækna gegn umhverfisvá. Starfshópurinn skili ráðherrum niðurstöðum sínum eigi síðar en 1. júní 2025. Ráðherrar leggi fram frumvörp á grundvelli þeirra fyrir lok árs 2025.

Greinargerð.

    Mengunarbótareglan (e. polluter pays principle) er undirstöðuregla í umhverfishagfræði sem snýst um að opinber gjöld séu lögð á mengandi iðnað og viðskipti til að bæta þann samfélagslega kostnað sem af menguninni hlýst. Oft er hagkvæmt fyrir fyrirtæki og einstaklinga að viðhalda eða auka mengandi losun þótt það sé verulega skaðlegt fyrir samfélagið í heild. Mengunarbótareglan felur í sér viðleitni til að leiðrétta þann markaðsbrest með því að færa ígildi hins samfélagslega kostnaðar inn í verð á vöru og þjónustu.
    Mengunarbótareglan fyrirfinnst víða í íslenskri löggjöf, til að mynda í innheimtu kolefnisgjalds og gjalds fyrir meðhöndlun úrgangs. Enn eru þó stunduð umfangsmikil viðskipti í íslensku hagkerfi sem stuðla að bæði mengun og sóun en engin mengunarbótaregla gildir um. Má nefna að tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2016/2284, sem kveður á um hámark losunar loftmengunarefna, hefur ekki verið innleidd.
    Með þingsályktunartillögu þessari er lagt til að umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, heilbrigðisráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra verði falið að skipa starfshóp sem kortleggi og greini samfélagslegan kostnað af mengun í íslensku hagkerfi og leggi til breytingar á gjaldtöku, og eftir tilvikum breytingar á lögum, til að tryggja að þeir aðilar sem mengi bæti samfélagslegan kostnað sem er á ábyrgð þeirra.